144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fyrirkomulag náms til stúdentsprófs.

[15:52]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mig langar aðeins að koma inn á þessar krampakenndu ástæður og aðgerðir ráðherrans við að sameina framhaldsskólana og því miður ganga fram eins og fíll í glerbúð. Það er afleiðingin af því að stytta nám til stúdentsprófs. Ég hvet eins og aðrir þingmenn hæstv. ráðherra til að lesa viðtalið við Sigrúnu Harðardóttur, lektor við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, þar sem hún fer mjög inn á siðferðilegar spurningar þessarar gjörðar. Það vantar nefnilega aðstoð fyrir nemendur sem eru með alls kyns erfiðleika og þeim er ekki ætlaður staður í hinu nýja módeli ráðherrans. Þar kemur hún inn á brotthvarfshættuna sem ráðherranum hefur orðið svo tíðrætt um.

Þetta fer í báðar áttir. Hvernig er með grunnskólann? Hvernig er með háskólann? Hvað er það sem grunnskólinn á að gera? Nú þegar er talað um að nemendur komi ekki nægilega vel undirbúnir upp í framhaldsskólana. Það er talað um að nemendur komi ekki nægilega vel undirbúnir upp í háskólana. Telur ráðherrann að styttingin hafi eitthvað með það að gera? Það er ekki mín skoðun, virðulegi forseti.

Síðan langar mig á síðari mínútu minni að ræða málefni sem hefur brunnið mjög á okkur þingmönnum Norðausturkjördæmis og mörgum öðrum sem hafa rætt þau mál undanfarið, þ.e. samráðsleysið við sveitarfélögin og viðeigandi aðila vegna fyrirhugaðrar sameiningar. Síðast í gær kom ályktun frá bæjarstjórn Fjallabyggðar þar sem farið er inn á það að Menntaskólinn á Tröllaskaga, ráðherrann nefndi hann nú sérstaklega, hefur sannað gildi sitt og vaxið og dafnað, er með fjölbreytt námsframboð og í góðu samstarfi við stofnanir og fyrirtæki á svæðinu og hefur gert fólki á öllum aldri kleift að ljúka námi. Það sem ráðherrann leggur til sem grundvöll að sinni ákvörðun á ekki við í tilfelli Menntaskólans á Tröllaskaga.

„Rökstuðningur ráðherra byggir á því að bregðast þurfi við samdrætti á umfangi vegna fækkunar nemenda og að skólarnir verði sjálfbærir um stoðþjónustu og rekstur. Hvorugt á við um MTR enda hefur aðsókn í skólann aukist ár frá ári og rekstur skólans“ alltaf verið innan fjárheimilda.

Virðulegi forseti. Ráðherra segir að ekki standi til að sameina, það þurfi ekki að hafa áhyggjur, en starfsfólk hans boðar eina kennitölu og einn fjárhag. (Forseti hringir.) Það þýðir sameiningu, virðulegi forseti. Ég hef óskað eftir opnum fundi um þessi mál með ráðherra í allsherjar- og menntamálanefnd og ég óska líka eftir því að skólameistarar viðkomandi skóla komi á þann fund.