144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fyrirkomulag náms til stúdentsprófs.

[15:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að óska eftir þessari umræðu hér. Það er mikilvægt að ræða menntamálin. Menntun unga fólksins okkar er einmitt eitt af því mikilvægasta sem við í þinginu tökum okkur fyrir hendur að ræða vegna þess að góð menntun er lykill að árangri. Upplýsingar eru lykill að árangri. Þess vegna er mikilvægt að við höldum vel utan um þennan málaflokk og af metnaði, ræðum þetta af metnaði og ræðum málin af yfirvegun, hlustum svolítið hvert á annað. Þess vegna kemur mér á óvart að þegar ráðherrann talar hér um að það sem er verið að tala um sé samþætting og samvinna misskilji menn það viljandi og nýti önnur orð í einhverjum sérkennilegum tilgangi, tali um krampakennd vinnubrögð o.s.frv. Það er algjör óþarfi að vera með gífuryrði í þessari umræðu. Róum okkur aðeins og ræðum málið eins og það kemur fyrir.

Ráðherrann leggur til að námið í framhaldsskóla verði hnitmiðaðra, að þetta verði afmarkaðra, það verði áfram sveigjanleiki í kerfinu, það sé hægt að klára á styttri tíma, en það verði jafnframt hægt að klára það á aðeins lengri tíma. Jafnframt hefur verið boðað að fjármagn verði ekki skorið niður heldur verði það nýtt í sama mæli og gert er í dag. Hér hefur verið fullyrt að til standi að draga úr vali nemenda. Það er hlutverk skólanna að finna út úr því hvað verði boðið upp á auk þeirra grunngreina sem auðvitað þurfa alltaf að vera til staðar. Ég treysti skólunum á hverjum stað til að leggja á það mat. Við eigum þar mikinn mannauð, gott fólk sem er fullbúið til þess að finna út úr þessu. Það hefur gefist vel í þeim skólum sem þegar hafa valið að fara í styttingu.

Við í allsherjar- og menntamálanefnd fengum upplýsingar inn í nefndina 28. apríl um samþættinguna á Iðnskólanum í Hafnarfirði og Tækniskólanum. Það er ekki verið að loka skólanum í Hafnarfirði, hann verður áfram starfræktur þannig að það er alveg (Forseti hringir.) ljóst að það álit sem hér var vitnað til í ræðu hv. þingmanns, ég held að það hafi verið Guðbjartur Hannesson, er ekki um að það eigi að loka skólanum.