144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fyrirkomulag náms til stúdentsprófs.

[15:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur fyrir að hefja þessa umræðu vegna þess að við höfum lítið fengið að ræða menntamálin. Við höfum frétt af áformum í fjölmiðlum. Framhaldsskólakerfið okkar hefur ýmsa kosti og sveigjanleikinn er einn af þeim helstu. Nú virðist mér stefnan vera sú að draga úr sveigjanleikanum, sama hvað hæstv. ráðherra kallar nýjar áherslur, fyrst með því að takmarka fjölda þeirra sem sækja bóknám og gera þeim sem eru 25 ára og eldri erfiðara með að sækja nám sem næst heimabyggð. Það gerir þeim nemendum erfiðara með að afla sér menntunar og það mun sjálfkrafa lækka menntunarstig þjóðarinnar og fækka störfum, einkum úti á landi. Síðan á að hverfa frá þeirri stefnu sem tekin var með framhaldsskólalögunum 2008 um aukið sjálfstæði skóla og möguleika þeirra til að mæta menntunarþörf á þeim landsvæðum þar sem þeir starfa, bæði hvað námsframboð og lengd náms varðar. Þetta mun gera námsframboðið fátæklegra, einkum í smærri skólum úti á landi og fækka þar störfum. Svo berast þær fréttir að fækka eigi framhaldsskólum og það sé nauðsynlegt vegna þess að nemendum hefur fækkað. Nemendum fækkar auðvitað þegar stjórnvöld setja fjöldatakmarkanir og bjóða ekki nám við hæfi og þá erum við komin í hring.

Mér sýnist algjört metnaðarleysi ríkja í menntamálum og svo virðist sem hugmyndafræði hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar sé látin ráða för við framtíðarsýn í þeim mikilvæga málaflokki. Það verður ekki þjóðinni til góðs. Ekki aðeins vantar metnaðarfulla menntastefnu, heldur skortir einnig metnaðarfulla byggðastefnu. Þessi atriði haldast reyndar í hendur því að gott aðgengi að menntun er ein af meginstoðum vænlegra búsetuskilyrða. Ég hef áhyggjur af því ef breytingar á framhaldsskólastiginu torvelda aðgengi og draga úr sveigjanleika og fjölbreytni vegna þess að það er slæm (Forseti hringir.) menntastefna og slæm byggðastefna.