144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fyrirkomulag náms til stúdentsprófs.

[16:01]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur umræðuna og öðrum þingmönnum sem þátt hafa tekið. Ég er hæstánægð með þann árangur sem við erum nú að ná við að stytta meðalnámstíma til stúdentsprófs. Það er löngu tímabært því að í allt of mörg ár hefur tími hluta nemenda farið í að endurtaka námsefni á mörkum skólastiga. Ég sé ekki nokkur rök til þess að sú breyting sem nú á sér stað muni draga úr sveigjanleika, hvorki námstíma né náms. Þvert á móti skapar hún tækifæri til að auka einstaklingsmiðun og möguleika nemenda til að stýra sínum hraða og möguleika til að bjóða námsleiðir fyrir alla.

Það er samt sem áður ljóst að við stöndum á tímamótum. Nemendum á framhaldsskólastigi fækkar, bæði vegna styttingar námstímans og fækkunar nemenda á framhaldsskólaaldri. Í tímamótum og breytingum felast tækifæri og okkur ber skylda til að nýta þau til að hugsa út fyrir boxið og styrkja skólastarf fyrir nemendur, ekki síst nemendur á landsbyggðinni. Það þarf að fara eftir fjölbreyttum leiðum og það þarf að virkja sem flesta í þeirri vinnu. Ráðuneytið sem ber ábyrgð á málaflokknum þarf að virkja skólasamfélagið á hverjum stað og samfélagið í heild.

Sameining skóla er ekki almenna lausnin á verkefninu. Ein leið sem við verðum að nýta betur til að auka einstaklingsmiðun og sveigjanleika er betri nýting á möguleikum til dreifnáms. Við höfum ekki efni á öðru í dreifbýlu landi. Ég hef kynnst afburðadreifnámi sem stendur fyllilega jafnfætis eða framar besta námsumhverfi sem þekkist annars staðar en ég hef líka kynnst löku námi, bæði dreifnámi og staðbundnu. Við verðum að vinna markvissar á þessu sviði og vita hvert við ætlum. Þarna eru ótal tækifæri, svo sem í móðurmálskennslu innflytjenda, en það er líka tímabært að taka umræðuna um meira samstarf grunnskóla og framhaldsskóla, svo sem (Forseti hringir.) samnýtingu stoðþjónustu og meiri samnýtingu kennara á mörkum skólastiga.