144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

fyrirkomulag náms til stúdentsprófs.

[16:09]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið mjög kallað eftir nauðsyn þess að fari fram upplýst umræða og samráð um þessi mál. Ég vek athygli á því að á síðasta ári, nánar tiltekið 17. júní síðastliðinn, gaf ég út hvítbók þar sem greint var frá fyrirhuguðum áformum varðandi breytingar á menntakerfinu og þau rökstudd. Það sem meira er, ég ferðaðist um allt landið og hélt eina 34–35 opna fundi fyrir allan almenning um þessi mál. Á fundina komu 1.400–1.500 manns til að ræða um menntamál. Það sem meira er, á grundvelli þeirrar aðgerðaáætlunar sem var rædd í hvítbókinni voru stofnaðir verkefnishópar sem voru skipaðir kennurum og stjórnendum með víðtæka reynslu og menntun á sviði skólamála og menntamála almennt og þeir hópar hafa haft víðtækt samráð og samstarf við hagsmunaaðila í þjóðfélaginu, Kennarasambandið, Samtök atvinnulífsins, Heimili og skóla, Alþýðusamband Íslands, Skólameistarafélag Íslands o.fl. Það hefur verið haldið þjóðráðsþing samráðsaðila. Það hefur verið opnuð sérstök samskipta- og upplýsingaheimasíða o.s.frv.

Ég hef reynt mitt til að setja þessi mál á dagskrá. Það hefur legið fyrir allt frá því að ég tók við embætti til hvers hugur minn stæði hvað varðar til dæmis námstíma. Í því verkfalli sem varð hjá framhaldsskólakennurum og kjarasamningum sem þá voru gerðir kom alveg skýrt fram af minni hálfu að grundvöllur þess að það væri hægt að stórhækka laun framhaldsskólakennara væri kerfisbreytingar sem miðuðu að því sem hér er verið að gera. Þetta hefur legið fyrir allan tímann.

Virðulegi forseti. Með þeirri ferð sem ég fór um landið, með útgáfu hvítbókar, með vinnu verkefnishópanna sem meðal annars fást við læsi, iðnnám og námstímann og því samráði sem þar hefur farið fram ætla ég að leyfa mér að halda því fram, virðulegi forseti, þrátt fyrir köpuryrði og gífuryrði sem hér hafa fallið að það sé leitun að jafn miklu samráði í raun og veru um þessi mál. Ég bið hv. þingmann að nefna þá hvað hefði (Forseti hringir.) átt að gera meira hvað það varðaði.