144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, því er ég alveg sammála og þess vegna skyldi engan undra að við sem viljum standa vörð um náttúru landsins tökum þessum málatilbúnaði þunglega. Í fyrsta lagi er málsmeðferðin ónýt og málatilbúnaðurinn ónýtur og ekki boðlegur Alþingi. Í öðru lagi er ég að minnsta kosti djúpt og hjartanlega andvígur innihaldi tillögunnar, efni hennar, ég er á móti því að þessum kostum sé bætt inn í nýtingarflokk. Og í þriðja lagi lít ég á þetta sem hluta af miklu stærra stríði. Við skulum ekki gleyma því að við erum á þessum sama vetri að horfa framan í áform Landsnets um að fara með háspennulínu þvert yfir Sprengisand sem vill helst draga Vegagerðina á eftir sér með uppbyggðan veg. Það er sótt að náttúrunni á mörgum fleiri sviðum þannig að það er ástæða til að reisa rönd við og einhverjar raddir verður hún að eiga, móðir náttúra, á Alþingi og ég er þakklátur öllum þeim félögum sem vilja leggja henni lið.