144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann vegna áherslna þeirra flokka sem segjast standa vörð um náttúruna og leggja mikið upp úr því út í þau virkjunarsvæði sem sett voru í síðustu rammaáætlun og samþykkt af þessum stjórnarflokkum í nýtingarflokk. Þá vitna ég til svæða eins og Eldvarpa og Svartsengissvæðis, Sveifluháls og Krýsuvíkursvæðis og Sandfells á Krýsuvíkursvæði. Telur hv. þingmaður að það séu minni umhverfisáhrif af þeim virkjunum og það sé eðlilegt að virkja þar frekar en í neðri hluta Þjórsár? Eins hefði ég viljað fá örstutta skýringu á því hjá hv. þingmanni hvað það er við Skrokköldu sem gerir það að verkum að umhverfisáhrif eru svo mikil og víðtæk eins og hv. þingmaður fór inn á í ræðu sinni.