144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmaður skilur ekki rammaáætlun. Hún snýst ekki um persónulegar skoðanir hvers og eins á hverjum og einum virkjunarkosti heldur heildstætt mat sem lagt er fram á faglegum grunni samkvæmt ákveðnum reglum.

Varðandi Skrokköldu er það svo að hún er inni á áhrifasvæði Vatnajökulsþjóðgarðs og ef við viljum vernda miðhálendið og búa þar til sérstakan þjóðgarð þá kemur Skrokkölduvirkjun ekki til greina.

Varðandi sæstreng er ég algerlega á því að við eigum að kanna kosti hans. Ég tel að það gæti verið mjög hagkvæmt fyrir okkur að fá eins hátt verð og mögulegt er í gegnum sæstreng. En ég tel líka og það er það sem ég hef áhyggjur af að þrýstingur vaxi á frekari virkjanir. Ég leyfi mér bara að telja að við eigum að skoða þetta og meta síðan hagsmuni okkar þar.