144. löggjafarþing — 111. fundur,  22. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:48]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst varðandi jöfnuð, sem ég tel að sé grundvöllur fyrir góðu samfélagi, þá óx hann vegna markvissra ákvarðana ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og tölurnar sem verið er að vitna í eru frá árinu 2013 þegar ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafði verið við völd hér í fjögur ár. Hins vegar hljótum við að bíða eftir tölum fyrir árin 2014 og síðan 2015 þegar breytingar hafa verið gerðar á skattkerfinu og sjá hvaða áhrif það hefur.

Varðandi rammaáætlun og ferlið þá tek ég undir með hv. þingmanni. Ég held að verkefni atvinnuveganefndar núna, þegar þessar breytingartillögur hafa verið dregnar til baka, eigi að vera að fara yfir fjölda umsagna með athugasemdum þar sem bent var á ákveðna veikleika þannig að það verði alveg skýrt um hvað rammaáætlun snýst (Forseti hringir.) svo að við lendum ekki í svipuðum aðstæðum aftur.