144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:17]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það verður að harma það forustuleysi og verkleysi sem einkennir stjórnarmeirihlutann hér á Alþingi. Endurspeglast það meðal annars í því að nú er liðin þriggja daga helgi með óþolandi ástandi hér í þinginu án þess að nokkur viðleitni hafi verið til samningaviðræðna af hálfu stjórnarmeirihlutans um lausn á þeim vanda sem hér er uppi. Ég verð þó að þakka forseta fyrir þann fund sem haldinn var í atvinnuveganefnd í morgun. Þar kom skýrt fram að það var skortur á viðbrögðum frá umhverfisráðuneytinu sem varð til þess að fjármunir þeir sem tiltækir voru voru ekki nýttir til rannsókna til þess að undirbúa tillögugerð eins og ber samkvæmt lögum. Það er þess vegna alveg ljóst að það er fullkomlega heimatilbúinn vandi stjórnarmeirihlutans sem hér er við að eiga og eðlilegast að tillaga meiri hluta atvinnuveganefndar sé dregin til baka, málin rannsökuð eins og lögin kveða á um og málið komi síðan aftur inn í þingið til ákvarðanatöku. Ég hvet hæstv. forseta til þess að taka þetta óþarfa mál af dagskránni í dag og (Forseti hringir.) taka mikilvægari mál til umfjöllunar allra okkar vegna.