144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Enn á ný ætlum við að verja dögunum í að takast á um þetta mikla deilumál algjörlega án þess að þurfa þess á þessum tímapunkti. Mér finnst það vera mikill áfellisdómur yfir störfum hæstv. forseta að við skulum ekki vera búin að setjast almennilega niður og reyna að ná einhverju samkomulagi í þessu máli eða reyna að beina því í uppbyggilegan farveg. Ég er formaður í stjórnmálaflokki hér á þingi og nú höfum við orðið vitni að því að hér er búið að vera upplausnarástand í tvær vikur sem gerir engum gott. Ég hef ekki verið boðaður á einn fund með formönnum stjórnmálaflokka til þess svo mikið sem ræða þetta ástand, ekki bara ástandið hér, heldur ástandið í þjóðfélaginu. Oft hafa nú vera haldnir fundir bara til samráðs af minna tilefni. Þetta er orðið mér ráðgáta. Hvað er í gangi, hæstv. forseti?