144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni að tíminn yfir hvítasunnuhelgina hafi ekki verið nýttur til neinna tilrauna til samninga um framhald þingstarfa og ekki hægt að halda áfram eins og skilið var við málið á föstudag með því einu að búið sé að afnema starfsáætlunina, og að engin önnur áætlun um framhald þingstarfa sé komin. Það vekur mér líka alvarlegar áhyggjur af stöðu þessara mála allra saman að heyra að á fundi atvinnuveganefndar í morgun hafi komið staðfesting á því frá formanni verkefnisstjórnar um rammaáætlun að ekki hafi borist skýrar upplýsingar frá ráðuneytinu um að fjármagn væri til reiðu til þess að halda áfram vinnu við rammaáætlun fyrr en í febrúar á þessu ári. Verkleysi ríkisstjórnarinnar er slíkt að hún hefur ekki einu sinni hlutast til um að fjármunir væru til reiðu til að vinna að þeim verkefnum sem hún segist þó bera fyrir brjósti. Það eina sem hún getur gert er að koma hér með óboðlega og óþingtæka tillögu um (Forseti hringir.) framhald mála. Er nema von að maður spyrji á hvaða vegferð ríkisstjórnarmeirihlutinn sé í þessu máli?