144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Á fundi atvinnuveganefndar í morgun kom mjög skýrt fram hjá formanni verkefnisstjórnar að við ættum að bíða þolinmóð eftir því að þeir kostir sem þar eru undir yrðu afgreiddir til þingsins haustið 2016, að ekki væri hægt að fara í neina flýtimeðferð með þau mál og þessir kostir ættu að fá þá faglegu umfjöllun sem þeir ættu skilið og það væri forsenda fyrir því að við færum eftir þeim lögum sem við settum okkur hér í janúar 2013. Ég var að vona að við mundum ræða málin eftir þennan fund hjá atvinnuveganefnd og taka tillit til þess sem þar kom fram, að ekki væri hægt að fara með þessi stóru og brýnu mál í flýtimeðferð. Það kom líka fram að það hefðu trúlega verið mistök að taka þessa átta kosti í einhverja flýtimeðferð vegna þess að ekki hefði verið hægt að nýta þá aðferðafræði sem verkefnisstjórnin notar við svo lítið mengi. (Forseti hringir.) En núna væri þessi vinna (Forseti hringir.) á fullu og þingið (Forseti hringir.) ætti ekki að vera að blanda sér í hana.