144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil líkt og nokkrir hv. þingmenn á undan mér lýsa vonbrigðum mínum yfir því að síðustu þrír helgidagar hafi ekki verið notaðir til þess að reyna að ná einhverjum lyktum í þetta mál. Það er hlutverk þeirra sem stjórna, ekki aðeins að stjórna og ákveða og segja að meiri hlutinn ráði heldur er hlutverk þeirra að reyna að leiða mál til lykta. Hér er mál sem er í einni allsherjar klemmu. Þegar þingið fór heim fyrir helgi var það í algjörri upplausn, virðulegi forseti, sem er engu okkar til framdráttar. Ég ætla að vona að menn fari að sjá að sér og reyni að leiða þetta mál til lykta og fari eftir þeim ferlum í þessu máli sem ákveðið hefur verið fyrir löngu, löngu síðan.