144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:32]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er gott að heyra að forseti ætlar að verða við þessari beiðni. Þegar maður hugsar um hvernig dagarnir eru búnir að vera og horfir fram í nánustu framtíð og sér ekkert annað en þetta tiltekna mál vegna þess að forseti þingsins hefur ákveðið að taka það á dagskrá þá er það auðvitað í hans valdi að taka það af dagskrá aftur og leita sátta innan sinna raða fyrst og fremst um það að málið verði tekið af dagskrá. Það er auðvitað dapurlegt að ekki hafi náðst nokkurs konar samkomulag eða sátt eða neitt slíkt núna yfir helgina og í rauninni var ekki leitað eftir því sem neinu nemur.

Ég held að í ljósi orða forsætisráðherra hafi hann helst beðið eftir nýrri þjóð, en ég held að það sé þjóðin sem þurfi nýjan forsætisráðherra, virðulegi forseti.