144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Hvað er í gangi? spurði ég áðan. Hvað útskýrir þessa þvermóðsku og stífni í stjórn þingsins? Ég hef ákveðna kenningu. Það hefur vakið eftirtekt og athygli mína og fleiri að frá þessari ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutanum hafa komið mjög fá frumvörp sem er að sumu leyti ágætt en að mörgu leyti líka mjög bagalegt í ljósi ástandsins sem er í samfélaginu.

Núna hefur starfsáætlun verið tekin úr gildi. Það held ég að sé ekki í grunninn út af því að við erum að deila um rammaáætlun, það er bara vegna þess að málin sem ríkisstjórnin hefur þó lagt fram þau eru ekki komin úr nefnd. Það eru 46 stjórnarfrumvörp enn í nefnd. Í nefndum er ekkert verið að ræða fundarstjórn forseta eða neitt slíkt, þar er fólk bara að vinna. Af hverju er þetta ekki komið úr nefndum? Það eru einungis 22 mismikilvæg mál frá ríkisstjórninni sem bíða afgreiðslu.

Staðreyndin er sú að það er upplausnarástand í samfélaginu. Ríkisstjórnin er ekki að gera neitt. Frá henni hefur ekkert komið. Hún er nakin. Þessi deila hérna (Forseti hringir.) er notuð til að breiða yfir þá staðreynd. (Forseti hringir.) Þannig að við erum bara hérna í einhverjum (Forseti hringir.) leikþætti.