144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:42]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með þeim sem hafa komið upp í ræðustól og lýst yfir vonbrigðum með það að hér hafi ekkert gerst í þessu þriggja daga helgarfríi sem við erum nú að koma úr. Ég trúði satt að segja ekki öðru en að hv. þingmenn settust niður undir stjórn hæstv. forseta og reyndu að koma með einhverja lausn. Það eru mér því alveg gríðarleg vonbrigði að við skulum vera hér aftur samankomin á nákvæmlega sama stað að því er virðist og við skildum við á föstudaginn.

Mér finnst þó nokkur huggun í því að hæstv. forseti ætli að gera hlé á fundi á eftir svo það sé í það minnsta hægt að halda þingflokksfundi og fara yfir stöðuna. Ég held að ég geti talað fyrir hönd okkar ansi margra þegar við segjum að þessu áttum við hreinlega ekki von á, að við mundum hittast hér á þriðjudeginum og málin stæðu svona.