144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:43]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Förum aðeins yfir tímaásana í þessu. Það hefur komið fram að ef stjórnarmeirihlutinn hefði ekki lagt í þennan leiðangur væru líkur á því að Hvammsvirkjun hefði verið samþykkt hér í desember síðastliðnum. Eftir níu mánuði samkvæmt auglýstri tímaáætlun verkefnisstjórnar rammaáætlunar á netinu munu faghópar skila næstu umferð, þ.e. þriðju umferð af röðun verkefnisstjórnar rammaáætlunar, tæplega 30 kostum. Í framhaldinu af því mun verkefnisstjórnin taka þá og flokka og skila til ráðherra sem síðan á haustþinginu á eftir getur lagt þá fram til þings.

Síðan kom líka fram í morgun að Landsvirkjun segir sjálf að í næsta kost á eftir Hvammsvirkjun geti hún ekki ráðist fyrr en á árinu 2018. Ég spyr mig: Hvernig skynjar stjórnarmeirihlutinn þennan (Forseti hringir.) veruleika miðað við það af hve miklu offorsi hann gengur hér fram og ákveður að hunsa alla umræðu um stóru málin á meðan?