144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:46]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Maður spyr sig hvað landsmenn vildu fá að ræða núna. Hvað vilja þeir fá að heyra, sér í lagi eftir helgina? Mundu þeir ekki vilja fá að heyra um rammaáætlun? Nei, djók, kannski mundu þeir vilja fá að heyra um stöðuna á vinnumarkaði, sér í lagi í ljósi ummæla hæstv. forsætisráðherra um helgina.

Við höfum ítrekað kallað eftir því að hæstv. forsætisráðherra gefi þinginu skýrslu. Það er alveg hægt að setja slíkt á dagskrá, þá bara á undan þessari rammaáætlunarhysteríu, um að halda áfram með hana hér í staðinn fyrir að forseti gefi þau skýru skilaboð til deilandi aðila að þetta fari ekki á dagskrá. Við gætum að minnsta kosti gert pásu á þessari dagskrá og farið að vinna að þarfari málum þangað til menn hafa komið sér saman um eitthvað. Að sjálfsögðu er til lausn á þessari deilu, en menn virðast bara ekkert vera að hittast. Forseti hefði einmitt fyrir helgina getað sett mönnum stólinn fyrir dyrnar og sagt: Þið þurfið að hittast, ég ætla ekki að taka þetta á dagskrá í þinginu fyrr en þið eruð komin með einhverja áætlun um það hvernig þið ætlið að ná sáttum. Það hefði forseti getað gert og forseti getur líka sett það á dagskrá að forsætisráðherra komi hingað og gefi okkur skýrslu um það sem er að gerast á vinnumarkaðnum og hvernig hann sjái (Forseti hringir.) að hægt sé að leysa þá deilu.