144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:47]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það hefur verið okkur öllum mikil ráðgáta hvernig í ósköpunum stendur á því að stjórnarmeirihlutinn vildi hafa rammaáætlun á dagskrá í þinginu. Svarið varð auðvitað öllum ljóst um helgina. Ástæðan er augljós, stjórnarmeirihlutinn vill koma í veg fyrir að forsætisráðherra sé hér að ræða um kjarasamninga eða það sem máli skiptir, enda sjá allir að það er betra að sleppa því.

Ég þakka forseta fyrir að gefa tíma til þingflokksfunda á eftir. Ég held að það sé gagnlegt að menn ráði ráðum sínum en ég árétta fyrri hvatningu mína um það að menn falli frá því að hafa þetta mál á dagskrá og vek athygli á grafarþögn stjórnarliða. Enginn þeirra reynir að koma í ræðustól og verja það ástand sem skapað hefur verið eða þann málatilbúnað sem (Forseti hringir.) er hér.