144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:48]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ekki ofsögum sagt, eins og kom fram í fjölmiðlum um helgina, að ráðherrarnir tala út og suður, þ.e. hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Þegar talað er um samningsumboð segir samningsaðilinn af hálfu ríkisins að hann sæki umboð sitt til fjármálaráðherra en ekki forsætisráðherra sökum þess hvernig sá síðarnefndi talaði í fjölmiðlum. Þetta er bara eitt af mörgu sem komið hefur fram. Ég upplifi að við séum í biðsal, ekki í þingsal, vegna þess að ríkisstjórnin er ekki búin að vinna málin sín þannig að hún geti komið með þau inn til þings, þau sem eiga að skipta einhverju máli, hvort heldur er í kjaraviðræðum eða einhverju öðru slíku eða við afnám hafta. Á meðan bíðum við og erum höfð að leiksoppum með því að hafa þetta mál á dagskrá alla daga.

Ég fagna því ef settur umhverfisráðherra hefur hugmyndir uppi um að heyra í þingflokksformönnum til að leita að lausn mála. Ég vona að hann geri það. Svo minni ég á að í dag ætlar fólkið að tala á Austurvelli, (Forseti hringir.) m.a. við forsætisráðherra.