144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:51]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Miðað við þær upplýsingar sem komu fram í hv. atvinnuveganefnd í morgun og sömuleiðis þá umræðu sem átt hefur sér stað hér í dag og miðað við allan þennan málatilbúnað og miðað við allan þann tíma sem við höfum eytt í þinginu til að ræða þetta mál og miðað við stöðuna á vinnumarkaðnum og yfirvofandi vandamál sem eru bein afleiðing af því verður maður að velta fyrir sér af hverju. Af hverju heimtar hæstv. ríkisstjórn að þetta mál sé á dagskrá? Það eina sem mér dettur í hug eftir allan þennan tíma og þessa umræðu og þessar upplýsingar er að þetta sé gert gagngert til að sóa tíma þingsins í fyrsta lagi og í öðru lagi til að kenna þinginu um þannig að hægt sé að benda á þingið og segja: Sjáið hvað minni hlutinn er vondur, hann er bara að eyða tíma í þetta á meðan við erum að reyna að redda einhverjum öðrum verkefnum, sem ríkisstjórnin vitaskuld er ekki að gera eftir því sem við fáum best séð.

Leiðrétti mig hver sem betur getur en komið þá í pontu og ræðið það frekar en það bölvaða mál sem hér er á dagskrá.