144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

verkleysi stjórnarmeirihlutans.

[13:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég held að vandi okkar við að ná hér saman eða komast eitthvað áfram með störf þingsins holdgerist í tveimur mönnum umfram aðra, þ.e. hæstv. forsætisráðherra sem veður hér um eins og krakki með bensínbrúsa og eldspýtur og kveikir elda úti um allt og síðan formanni atvinnuveganefndar sem sendir enn tóninn, nú í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Ef einhvers staðar er rof á milli veruleika og skynjunar er það líka hjá hv. þingmanni því að hann gerir breytingartillögu meiri hlutans að viðmiði og telur þar með ekki stjórnartillöguna eins og hún kom fram. Nei, viðmiðið er breytingartillagan, óþingtæka og fáránlega breytingartillagan frá honum sjálfum, og þar með er meiri hlutinn orðinn alveg sérstaklega sanngjarn og hefur teygt sig langt með því að falla frá Hagavatnsvirkjun.

Þannig eru málin sett upp, öll sökin sett á aðra, vottar hvergi fyrir sjálfsgagnrýni og fyrirsögn fréttarinnar er, höfð beint eftir hv. þingmanni: Málsmeðferð — hvers? Ekki hans sjálfs, ekki meiri hlutans, nei, málsmeðferð minni hlutans er til skammar. Hvernig komumst við nú áfram, herra forseti, með oddvita (Forseti hringir.) af þessu tagi? Ég held að það sé alveg ljóst að það þarf að tryggja að hvorki formaður atvinnuveganefndar né hæstv. forsætisráðherra komi nálægt viðræðum um samninga um þinghaldið.