144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

ástand á vinnumarkaði og orð forsætisráðherra í fjölmiðlum.

[13:57]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Markmiðið er einmitt að leggja grunn að góðri lausn. Þess vegna hefur ríkið verið tilbúið til að skoða ýmsar ólíkar nálganir, meðal annars sum þeirra atriða sem hv. þingmaður nefndi hér, en ávallt nefnt það í því samhengi að aðkoma þyrfti að vera til þess fallin að gera kjarasamningana betri, að gera niðurstöðuna betri fyrir launþega.

Af því að hv. þingmaður nefndi hér hjúkrunarfræðinga sérstaklega hljótum við að vera sammála um að við þurfum á því að halda að búa íslenskum hjúkrunarfræðingum þau kjör og þær starfsaðstæður hér á Íslandi að við höldum í þetta fólk, missum það ekki úr landi. Stór hluti af því hlýtur að vera sá að koma í veg fyrir að hugsanlegar kjarabætur, hugsanlegar launahækkanir, í þeim samningum sem nú standa yfir verði étnir upp af verðbólgu. Þess vegna leggjum við svo mikla áherslu á að niðurstaðan verði til þess fallin að skapa raunverulegar kjarabætur, því að ef aðilar vinnumarkaðarins eða viðsemjendur missa þetta út í það að efnahagsástandið þróist til verri vegar, að verðbólgan fari af stað, bitnar það á stéttum eins og hjúkrunarfræðingum sem munu þá tapa á þeirri þróun, bæði beint með því að tekjurnar verða minna virði og með því að skuldirnar hækka, allt verður dýrara. Það er ekki til þess fallið að búa þessu fólki starfsöryggi eða góða vinnuaðstöðu á Íslandi. Þess vegna hlýtur sameiginlegt markmið okkar allra að vera að niðurstaða þessara viðræðna leiði til raunverulegra kjarabóta.