144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

ástand á vinnumarkaði og orð forsætisráðherra í fjölmiðlum.

[14:01]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ef hv. þingmaður hefur áhuga á staðreyndum skal ég nefna hér tvær að minnsta kosti: Tekjuöfnuður á Íslandi er einhver sá mesti í heimi og hefur aukist, jöfnuðurinn hefur aukist í tíð þessarar ríkisstjórnar og aðkoma stjórnvalda að samningum nú verður að öllum líkindum til þess fallinn að auka enn jöfnuð. Ef hv. þingmaður hefur áhuga á fleiri staðreyndum má benda honum á að það er ekki aðeins rangt, það er beinlínis ósvífið og óheiðarlegt að halda því fram að arður okkar af auðlindum hafi minnkað. Arður samfélagsins af sjávarútvegi, af því ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður hafi ekki síst verið að vísa til þess, hefur aldrei verið meiri en nú. Það hefur forðað þeim fjöldagjaldþrotum sem orðið hefði ella.

Talandi um staðreyndir, virðulegur forseti. Það er staðreynd sem legið hefur fyrir lengi og var áréttuð fyrir þremur vikum af formanni samninganefndar ríkisins að að sjálfsögðu þyrftu menn að sjá í hvað stefndi á almenna markaðnum áður en hægt væri að semja á opinbera markaðnum um (Forseti hringir.) um miklu meiri hækkanir en lagt hefur verið upp með. Það eru allt staðreyndir, virðulegur (Forseti hringir.) forseti. Og það væri gagn að því ef hv. þingmaður vill leggja gott til eins og hann heldur hér (Forseti hringir.) fram, að hann tæki mark á staðreyndum.