144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

kostnaður við nýtt húsnæðisbótakerfi.

[14:05]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir fyrirspurnina. Eins og hv. þingmaður þekkir ágætlega hefur verið unnið töluvert lengi að frumvarpi um breyttan húsnæðisstuðning í velferðarráðuneytinu. Það frumvarp sem nú er til skoðunar og unnið hefur verið að er í samræmi við þær tillögur sem fram komu hjá verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála og þann viðauka sem fylgdi sérstaklega með þeirra skýrslu, og það er líka í samræmi við niðurstöðu fjölskipaðrar nefndar sem starfaði á síðasta kjörtímabili varðandi breytt fyrirkomulag húsnæðisstuðnings.

Varðandi það sem fjallað hefur verið um að undanförnu held ég að það sé mjög mikilvægt að hafa það í huga að menn hafa ekki séð frumvarpið í heild sinni. Þarna er sleppt mikilvægum forsendum sem liggja að baki útreikningi húsnæðisbóta. Vegur þar þyngst að lagt er til að grunnbætur hækki verulega og að frítekjumarkið hækki einnig þar sem aukið tillit er tekið til fjölskyldustærðar. Með því erum við bregðast við þeirri staðreynd að húsnæðiskostnaður fólks á leigumarkaði sem hlutfall af tekjum hefur hækkað verulega síðustu ár á meðan húsnæðiskostnaður fólks í eigin húsnæði hefur lækkað og að leigjendum hefur fjölgað umtalsvert, þeir eru núna 2015 í tæpum 25% af heimilum landsins. Fjölgun leigjenda á almennum markaði er því mest í hópi þeirra tekjulægstu og með hækkun grunnbóta er stuðningur við þá aukinn umtalsvert. En jafnframt er leitast við að koma til móts við stærri hóp leigjenda sem ber aukinn húsnæðiskostnað vegna fjölskyldustærðar. Þó að frumvarpinu sé einkum ætlað að auka húsnæðisstuðning við tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga er markmiðið jafnframt að jafna opinberan húsnæðisstuðning við ólík búsetuform, eins og ég hef margítrekað hér. (Forseti hringir.) Það mun þýða að stærri hópur mun eiga rétt á nýjum húsnæðisbótum.