144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

Hvammsvirkjun.

[14:15]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Þess vegna er spurt: Telur hæstv. ráðherra það samræmast anda laganna að gera svo stórkostlegar breytingar í þinginu, burt séð frá því hvort það sé lagatæknilega framkvæmanlegt í krafti þingskapa að gerðar séu margháttaðar breytingartillögur, gríðarlega veigamiklar? Lögin hafa ákveðið meginmarkmið, þ.e. að svona hlutir séu afgreiddir í sátt, eins mikilli sátt og mögulegt er.

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um það sem fram kom á fundi atvinnuveganefndar í morgun, að Landsvirkjun gæti ekki hafið vinnu við Holtavirkjun, virkjun númer 2 samkvæmt tillögu atvinnuveganefndar, fyrr en eftir þrjú ár og að verkefnisstjórnin gæti lokið skoðun sinni á öðrum kostum í september á næsta ári. Hvers vegna liggur okkur svona mikið á? Er ekki rétt, hæstv. ráðherra, að leggja þessa virkjunarkosti til hliðar og gefa (Forseti hringir.) verkefnisstjórninni færi á því að ljúka sinni vinnu vegna þess að það mun ekki (Forseti hringir.) hafa áhrif á röð (Forseti hringir.) framkvæmda?