144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

Hvammsvirkjun.

[14:16]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Nú er rétt að rifja það upp að verkefnisstjórn rammaáætlunar 2 lagði til að allir þeir virkjunarkostir sem hér er fjallað um, utan Hagavatnsvirkjunar og Hólmsárvirkjunar neðri við Atley, væru í nýtingarflokki. Það var síðan pólitísk ákvörðun síðustu ríkisstjórnar að taka þá kosti út, setja þá í umsagnarferli og rökstyðja það með því að margir hefðu haft eitthvað á móti þessum virkjunum og þær yrðu því teknar út. Við þekkjum það reyndar úr sögubókum. Fyrrverandi utanríkisráðherra benti til að mynda á að þetta hefðu bara verið pólitísk hrossakaup hjá síðustu ríkisstjórn. Það eru vissulega rök fyrir því að búið sé að fjalla um kostina í verkefnisstjórn. Það var gert í rammaáætlun 2. Það er því alveg hægt að halda því fram að verkefnisstjórn hafi fjallað um þetta í kringum rammaáætlun.

Sátt, það var auðvitað engin sátt hérna á síðasta kjörtímabili. Eftir langar umræður náðist að lokum sú niðurstaða að meiri hlutinn fékk sínu framgengt og núna (Forseti hringir.) erum við að fjalla um þetta enn og aftur (Forseti hringir.) á svipaðan hátt. Það eru átök um málið og það er eðlilegt að menn finni einhverja lausn á því. (Forseti hringir.) En það er ekki hægt að halda því fram að það hafi ekki verið stunduð (Forseti hringir.) fagleg vinnubrögð á leiðinni.