144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

frumvörp um húsnæðismál og ríkisfjármálaáætlun.

[14:24]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er alvarlegt ástand á leigumarkaði og hefur verið um allnokkra hríð. Leiguverð hefur farið hækkandi, ekki síst vegna skorts á leiguhúsnæði samhliða því sem leigjendum hefur fjölgað. Á meðan þessar aðstæður hafa magnast hefur togstreitan á milli velferðarráðuneytis og fjármálaráðuneytis magnast vegna húsnæðisfrumvarpa félags- og húsnæðismálaráðherra. Það má segja að þessi togstreita sé í raun birtingarmynd af togstreitu á milli stjórnarflokkanna í húsnæðismálum.

Eitt ákveðið frumvarp af fjórum um húsnæðisbætur hefur ekki verið afgreitt út úr ríkisstjórn en einhver hefur valið að leka kostnaðarmati fjármálaráðuneytisins til fjölmiðla. Fram kemur á RÚV, fréttastofunni sem sagt, að ráðuneytið telji að frumvarpið nái ekki markmiði sínu, en markmið húsnæðisbóta átti að vera að jafna stuðning við fólk óháð búsetuformi, auka stuðning við þá tekjulægstu og stuðning við leigjendur á meðaltekjubili sem fá ekki húsaleigubætur en fengju vaxtabætur ef þeir væru í eigin húsnæði. Þá fylgir þessu að fjórða frumvarpið þarf að koma fram, um stofnstyrki, sem ýtir undir fleiri leiguíbúðir og lægri fjármagnskostnað leigufélaga. Þá er verið að tala um félög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða, sem sagt almannaþjónustufélög.

Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra tveggja spurninga. Fyrst og fremst vil ég spyrja hana hvort túlkun fjármálaráðuneytisins á frumvarpinu sé rétt að hennar mati og hvort gera þurfi breytingar á því til að það nái markmiðum sínum. Hins vegar hvort hún hyggst samþykkja ríkisfjármálaáætlun sem nú liggur fyrir þinginu sem gerir ekki ráð fyrir þeim útgjöldum (Forseti hringir.) sem nauðsynleg eru til þess að frumvarpið geti (Forseti hringir.) orðið að lögum.