144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er ekki ofsögum sagt að þetta er ekki það sem við vildum helst vera að gera, stjórnarandstaðan og ég hef heldur ekki trú á því að stjórnarliðar mundu vilja vera að gera þetta, þ.e. tala um sama málið, tala um að við viljum ekki hafa það á dagskrá og það er vegna þess að við viljum að farið sé eftir lögboðnum ferlum. Um það snýst málið. Það snýst um að fara eftir því að verkefnisstjórn fái að fjalla um málin samkvæmt anda laganna en ekki bara klípa út það sem hentar meiri hluta atvinnuveganefndar og láta það duga þegar færð eru rök fyrir því hvers vegna þeir telja að þeir geti bætt öllum þessum kostum við. Það væri gustukaverk að málið væri tekið af dagskrá og sett á dagskrá mál sem snerta þjóðina mun meira þessa dagana. Ég er hrædd um að við eigum eftir að heyra vel í þjóðinni á Austurvelli á eftir og þá vandar hún væntanlega ekki ríkisstjórninni kveðjurnar, þ.e. þá uppgötvar forsætisráðherra kannski að það er hann sem þarf að líta í eigin barm en ekki öll þjóðin.