144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:06]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég geri enn og aftur athugasemdir við dagskrána og eftir því sem mér skilst að hafi komið fram á fundi hv. atvinnuveganefndar þá eru engar brýnar ástæður fyrir því að flýta þessu ferli með þeim hætti sem meiri hluti hv. atvinnuveganefndar hefur lagt til. Engar brýnar ástæður kalla á það að við eyðum tíma Alþingis í að ræða þessi mál. Það liggur fyrir að verkefnisstjórnin mun skila af sér 26 kostum haustið 2016 sem Alþingi getur þá fengið til umfjöllunar. Þessi rimma sem við eigum í snýst fyrst og fremst um það að menn vilja taka hlutina úr því ferli sem búið er að ákveða og setja niður með lögum og reyna að knýja í gegn einhvers konar flýtimeðferð, þvert á þær reglur og þvert á öll góð og vönduð vinnubrögð. Það er áhyggjuefni að við ætlum að verja tíma Alþingis í þetta, í eitthvert mál sem er farið að snúast um stolt einstakra hv. þingmanna. Það er ekki góð nýting á tíma.