144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:12]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Ástæðan fyrir því að maður kemur upp um fundarstjórn forseta er að maður er ósáttur við nákvæmlega það, fundarstjórn forseta. Nú er komið á þriðju viku þar sem maður reynir að opna augu hæstv. forseta fyrir ýmsum annmörkum á þeirri dagskrá sem hann leggur upp með hér dag eftir dag. Það hlaðast upp, eftir því sem umræðunni vindur fram, röksemdir fyrir því að breyta dagskránni. Þetta eru efnislegar ræður sem við erum að flytja um dagskrána og spurninguna um það hvernig dagskráin á að vera.

Það kom til dæmis ein mjög skýr og sterk röksemd fram í dag eftir fund atvinnuveganefndar: Það liggur ekkert á því fyrir okkur hér að ræða þetta mál. Verkefnisstjórnin er með þessa kosti til umfjöllunar og hún mun skila vandaðri umfjöllun sinni um þá til þingsins haustið 2016. Enn og aftur: Af hverju eigum við að fara að ræða málið algerlega á skjön við lögin og í ljósi þess að þetta er náttúrlega eitt mesta deilumál sem hægt er að brydda upp á í þingsalnum?