144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:29]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Mér finnst fyrir löngu vera orðin óskiljanleg þráhyggja að halda áfram með málið á dagskrá. Svo lengi sem breytingartillaga meiri hluta atvinnuveganefndar hverfur ekki af heimi þá komumst við hvorki lönd né strönd. Það er bara veruleikinn. Það er einfalt að skynja hann, held ég, eins og hann liggur fyrir og ég átta mig ekki á því ef þarf nokkrar vikur í viðbót til að koma þeim veruleika til skila.

Til hvers að halda áfram með þetta þegar allt og sumt sem þetta snýst um er þá að leyfa hinu faglega og lögbundna ferli að hafa sinn gang og við fáum röðun sem óumdeilanlega verður í samræmi við lögin, anda þeirra og aðferðafræði eftir rúmlega ár? (Gripið fram í.) Það er auðvitað augljóst að það er það sem á að gera. Þetta er í grenjandi andstöðu við öll umhverfisverndarsamtök í landinu, þetta er í andstöðu við sameinaða ferðaþjónustuna, þetta er í andstöðu við mörg önnur heildarsamtök í landinu sem hafa sagt: Það á að fara að lögum og það á að virða fagleg ferli. Þetta er óskiljanlegt stöðumat og það er eitthvað mikið að, frú forseti. Það er eitthvað rotið í ríki Dana. Ég hef það á tilfinningunni að landið reki stjórnlaust. Alla vega er verkstjórinn til lítils gagns.