144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áframhald umræðu um rammaáætlun.

[15:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að heyra að þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins vilji fara að líta á þau mál sem fyrir liggja og búið er að afgreiða úr nefndum. Það er ekki mikið sem gengur undan ríkisstjórninni en við reynum að klára það sem til okkar kemur. Ég legg til að hæstv. forseti fari að setjast yfir það með þingflokksformönnum að fara yfir þau mál sem eru líkleg til að fá greiða afgreiðslu í gegnum þingið. Á meðan getur hún kælt meiri hluta atvinnuveganefndar og hlúð að honum eftir erfiðar tvær vikur sem hafa ekki verið honum til framdráttar, vaðandi fram með flaustursgangi eins og við höfum orðið vitni að í þinginu.

Ég legg áherslu á að það er mjög erfitt sem þingmaður að gera sér enga grein fyrir hvert við stefnum með þinghaldið. Þeirri óvissu verður að eyða. Það skuldum við sjálfum okkur, lágmarksvirðingu. Þó að almenningur treysti okkur illa (Forseti hringir.) skulum við reyna að halda smásjálfsvirðingu, tala saman og finna út úr dagskránni.