144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að það sama eigi við um Skrokköldu og hina kostina sem eru Holta- og Urriðafossvirkjun í neðri hluta Þjórsár. Þessir kostir hafa ekki fengið endanlega faglega umfjöllun. Þeir eru enn þá í bið. Þannig er það nú bara. Þó að neðri hluti Þjórsár hafi verið rannsakaður mikið vitum við að það fór í lögformlegt ferli, umsagnarferli, og niðurstaðan var sú að frekari rannsóknir þyrfti á laxastofninum. Verkefnisstjórnin, eins og ég skil það, skilaði ekki af sér Skrokköldu í nýtingarflokk þegar flýtimeðferðin fór fram vegna þess að hún var ekki tilbúin. Það sem formaður verkefnisstjórnar segir er að efnislegri umfjöllun um þessa kosti sé ekki lokið, það er ekkert flóknara en það.