144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:04]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður á sæti í atvinnuveganefnd þá er maður að reyna að átta sig aðeins á þessari stöðu og því sem fram kom á fundinum í morgun. Er það rétt skilið hjá mér að það hafi komið fram hjá Landsvirkjun að það væri ekki fyrr en 2018 sem menn mundu fara í framkvæmdir á virkjun nr. 2, þ.e. á eftir Hvammsvirkjun?

Í öðru lagi vil ég spyrja hvort ekki hafi verið farið yfir það í morgun, eins og kemur fram á vef rammaáætlunar, að eftir níu mánuði héðan í frá muni faghóparnir skila af sér röðun á tæplega 30 kostum, 26 eða 27, og í framhaldinu af því verði unnið með þá, þeim raðað og þeir flokkaðir og skilað til ráðherra fyrir haustþing 2016.

Ef þetta er rétt skilið hjá mér vil ég biðja hv. þingmann að segja mér hvort fram hafi komið, hjá nefndarmönnum stjórnarmeirihlutans, (Forseti hringir.) hvers vegna þeir eru þá að fara þessa leið núna sem ég sé ekki annað en að sé bara að tefja fyrir framkvæmdum jafnt og friðlýsingu.