144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Það er nefnilega það. Maður veltir því fyrir sér hvað mönnum gengur til. Þetta virðist snúast um það eingöngu, það er hluti af þessum pakka, að vilja vinda ofan af einhverju sem gerðist á síðasta kjörtímabili. Í kappi sínu við það að slást við ríkisstjórnina sem fór frá völdum fyrir tveimur árum eru menn farnir að þvælast fyrir sjálfum sér. Það er akkúrat það sem er að gerast í þessu máli.

Ég held að menn sjái ekki alveg fyrir hvernig þetta mál getur endað og muni sjá að betra hefði verið að halda þessu í ferli og halda þessu á tímaáætluninni sem rammaáætlun hafði sett sér. Eins og hv. þingmaður nefndi, og það væri kannski áhugavert að heyra aðeins nánar frá henni, er verið að rífa þetta úr ferli sem menn hafa sætt sig við; menn hafa alla vega fellt sig við vinnulag sem sátt er um. Það er verið að rjúfa það vinnulag, setja þetta inn í það ófriðarferli sem (Forseti hringir.) við höfum séð hér síðustu tvær vikur. Það getur endað með ósköpum og aftur á sama stað og við byrjuðum á, þ.e. með endalausum kærum og deilum um einstaka virkjunarkosti.