144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:09]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er forvitnilegt fyrir okkur sem ekki eigum sæti í hv. atvinnuveganefnd að reyna að skyggnast aðeins inn í nefndina með því að eiga orðastað við varaformann hennar. Það sem mig langar að spyrja um er í framhaldi af því sem kom hér á undan. Ef við drögum þessa tillögu til baka, þ.e. ef stjórnarmeirihlutinn gerir það og fer í lögformlega ferlið, mér skilst hæstv. að umhverfisráðherra sé búinn að gera kröfu eða koma með ósk um að verkefnisstjórnin ljúki 3. áfanga 1. september 2016. Hvað ef það tækist, og maður hefur enga ástæðu til þess að ætla annað ef menn hafa núna loksins útvegað pening í þetta, og það kæmi inn frumvarp strax í septembermánuði, er einhver ástæða til annars en að það fái þinglega meðferð og eðlilega meðferð ef menn halda sig við ferlið? Mér finnst þetta skipta máli vegna þess að þegar menn eru að tala um þetta þá væri mikið til unnið ef við gætum losað okkur undan því að vera í átakafarvegi með þennan málaflokk.