144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:11]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, verkefnisstjórn vill auðvitað fá vinnufrið til að sinna þessu stóra og brýna verkefni sem er núna í fullri vinnslu með fullskipaða faghópa. Henni finnst hún í sjálfu sér ekki hafa langan tíma til að skila af sér 26 kostum, til 1. september 2016, og ætlar sér að nýta þann tíma vel. Hún vill helst geta komið með skýrar tillögur að þeim tíma loknum. Ég á ekki von á öðru en að þingið virði þá niðurstöðu sem kemur út úr því ferli. Það er það sem við erum að kalla eftir, að það fari í það lögformlega ferli, og þannig tökum við þeim tillögum sem þá koma og tökum mark á þeirri faglegu vinnu sem verður unnin fram að þeim tíma.