144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:13]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Jú, það kom skýrt fram að núna hafa faghóparnir næga fjármuni til að vinna sína vinnu. Eins og kom fram í ræðu minni fyrr var það ekki fyrr en 15. febrúar á þessu ári sem það lá alveg skýrt fyrir hvernig greiðslum yrði háttað til fagmannanna sem vinna í þeim hópum, en það liggur núna fyrir og það er gott. Þeir skila af sér næsta vor, síðan er lögbundið umsagnarferli og þetta kemur þá til ráðherra 1. september 2016.

Það kom líka fram að þótt settir yrðu sérstakir fjármunir í þetta núna mundi það ekkert breyta því að það tekur bara þennan tíma. Menn verða að draga djúpt andann og leyfa fagfólkinu að vinna sína vinnu. Það er ekki hægt að kaupa sig fram fyrir í röðinni, hv. þingmenn meiri hluta atvinnuveganefndar, það er ekki hægt að gera það í þessu tilfelli ef við (Forseti hringir.) ætlum að standa faglega að þessu.