144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:39]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kraftmikla ræðu eins og honum einum er lagið. Hann fer hér mikinn, talar um frumstæða frekju í örfáum mönnum. Hvar heyrist í náttúruverndarsinnum framsóknarmanna? Ég vil benda hv. þingmanni á að frekjan er ekki meiri í þeim hv. þingmönnum en það að þeir leggja til þá kosti sem fullskipaðir faghópar í verkefnisstjórn fyrir rammaáætlun 2, einu faghóparnir sem voru fullskipaðir og fengu nægan tíma, ekki neitt bráðabirgðaverkefni heldur fengu fullan tíma til að fara yfir kostina, þeir mæltu með þessum kostum öllum í nýtingarflokk. Frekjan er nú ekki meiri en svo.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað má þá nefna þau vinnubrögð að eftir alla þá vinnu sem þessir faghópar, fullskipaðir faghópar, einu fullskipuðu faghóparnir sem hafa fengið að vinna sín verk, hvað má þá kalla það sem var gert við þá? Þvert á faglegt mat voru sex virkjunarkostir teknir úr nýtingarflokki og settir í biðflokk. Hluti af þeirra verkefni var að skoða þetta í þjóðhagslegu samhengi þar sem vatnsaflskostir og gufuaflskostir voru nýttir saman, ekki bara jarðvarmavirkjanir heldur að virkja þetta í bland til að láta það bakka hvað annað upp.