144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki endilega sammála hv. þingmanni um einstaka virkjunarkosti, þó kannski sammála honum um suma. En það sem fyrir mér vakir, í þessari umræðu allri, er að bjarga rammaáætlun, er að það verði til eitthvert ferli til framtíðar sem gerir okkur kleift að fjalla um þessi mál þannig að það sé alla vega sæmileg sátt um ferlið. Vitaskuld verðum við aldrei sammála um einstaka virkjunarkosti, það er eðlilegt, við höfum misjafnt verðmætamat, við höfum misjafna sýn á það hvað þykir fallegt. Mér þykir Urriðafoss afskaplega fallegur og vil ekki virkja hann af þeim sökum en öðrum finnst eitthvað annað.

Hvað sem því líður þá er það sem fer hvað mest í mig í þessari umræðu allri þessi tortryggni sem hefur verið til staðar núna, ekki bara á þessu kjörtímabili heldur á síðasta kjörtímabili. Þó að ég skilji vel málflutninginn frá síðasta kjörtímabili, um að þar hafi menn verið að setja hlutina í bið vegna varúðarreglu o.s.frv., eitthvað sem ég get heilshugar tekið undir, þá stendur eftir spurningin um það hvernig við náum sátt þegar fram líður.

Þessi breytingartillaga frá hv. atvinnuveganefnd er sérstaklega furðuleg í ljósi þess að upphaflega var Hagavatnsvirkjun með sem hefur ekki fengið neina umfjöllun að því er ég veit til; nema það að hún eigi að vera í biðflokki og ekkert komið frá verkefnisstjórn sem bendir til annars þannig að breytingartillagan er skrýtin. Maður fær það á tilfinninguna að hún hafi verið sett fram til að draga hana til baka til að atvinnuveganefnd gæti síðan sagt eftir á að hún væri svo ofboðslega skynsöm og hlustaði svo mikið á minni hlutann. Eftir standa neðri hluti Þjórsár og Skrokkölduvirkjun og algerlega ófyrirséð hvernig verður með framhaldið upp á það að hafa eitthvert sáttaferli í gangi.

Ég er að leitast eftir umræðum um það hvaða lagabreytingar væri hugsanlega hægt að gera sem gætu stuðlað að því að við gætum aftur komið okkur inn á þá braut að hugsanlega væri hægt að ná sátt um ferlið í framtíðinni.