144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:52]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það skiptir að sjálfsögðu máli hvernig búið er um umhverfismat, til dæmis að þau geti ekki orðið ævagömul. Það verði þá að endurtaka matið innan tiltekins tíma o.s.frv. Hvernig verður með skipulags- og leyfisveitingavald í þessu samhengi? Allt hangir þetta upp að vissu marki saman. Það þarf að líta yfir sviðið í heild og hvernig hlutunum er þar fyrir komið.

Auðvitað er það þannig þegar maður fer að velta aðeins upp áleitnum framtíðarspurningum, sem eiga alveg erindi inn í þessa umræðu, að svörin vísa frekar í þá átt að vera ekki með óðagot. Hvað verður með beislun vindorkunnar? Nú er ljóst að Íslendingar hafa alveg einstaka aðstöðu til að beisla talsvert vindorku og spila hana saman við vatnsaflsvirkjanir með miðlunarlónum. Við getum tæmt úr þeim á meðan er logn og svo keyrt vindmyllurnar á móti.

Hvað með sæstrenginn? Hvað með orkuskipti í samgöngum? Ef allt í einu yrði bylting eftir 10 ár og við sæjum fram á að geta farið inn á vistvæna endurnýjanlega orkugjafa með allar okkar samgöngur, umferð á land og skip? Ætlum við þá að segja: Æ nei, því miður, við erum nýbúin að binda alla orkuna í tvö álver?