144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[16:57]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég fagna framkominni dagskrártillögu hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar þar sem enn og aftur verður lagt til að ástandið á vinnumarkaði verði rætt og ekki er vanþörf á. Það er það sem brennur á almenningi í landinu. Á meðan er þinginu haldið uppteknu við að ræða tillögu sem, eins og margoft hefur komið fram, stangast á við þau góðu vinnubrögð sem við á Alþingi höfum samþykkt að tileinka okkur. Ég hef margoft hér vitnað í þá samþykkt sem var gerð á síðasta kjörtímabili, samþykkt sem var gerð með 63 atkvæðum gegn engu mótatkvæði um að við þingmenn ætluðum að fara að bæta stjórnmálamenninguna, m.a. með því að hlusta meira eftir áliti fagmanna.

Í þeirri ólánstillögu sem hér er til umræðu er margítrekað í umsögnum og hvatt til þess að ljúka þessu ferli, draga andann í kviðinn til hausts 2016 og bíða eftir því að verkefnisstjórn ljúki verki sínu. Það hefur komið fram að verkefnisstjórn fékk ekki fjármagn til að fullfjármagna faghópana fyrr en snemma á þessu ári (Forseti hringir.) þannig að vandinn er heimatilbúinn.

Við verðum að fara að tileinka okkur þessi vinnubrögð, herra forseti.