144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:03]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Mig langar að setja hlutina aðeins í samhengi. Sem óbreyttur þingmaður leggur maður fram fullt af málum og er með fullt af málum á sínu áhugasviði. Ég mundi alveg vilja að við værum að ræða til dæmis það að setja þjóðinni framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum, sem við í Bjartri framtíð höfum lagt fram þingsályktunartillögu um hvað eftir annað. Hlutskipti okkar þingmanna er yfirleitt það að þau mál fást ekki rædd. Það eru tugir mála frá þingmönnum sem bíða umræðu, einfaldlega 1. umr., þau eru ekki einu sinni komin í nefndir, þetta eru yfirleitt þingmannamál.

Nú bregður svo við að hér er mál frá hæstv. ráðherra sem líklega nýtur meirihlutastuðnings hérna og er ekki það umdeilt, þótt margir séu á móti því að virkja í Hvammsvirkjun held ég að það sé mál sem hefur farið í gegnum sitt ferli og yrði afgreitt og væntanlega samþykkt. En tveir þingmenn, vegna þess að þá langar til að virkja meira, (Forseti hringir.) fá óskipta athygli þingsins núna hátt á þriðju viku. Út frá hlutskipti okkar hinna, hvað varðar áhugasvið okkar óbreyttra þingmanna, er þetta engan veginn sanngjarnt.