144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:17]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka fram að ég hef ekkert út á fundarstjórn hæstv. forseta að setja og hvet þingmenn til að snúa sér að dagskránni og halda áfram málefnalegum umræðum um rammaáætlun. Það flýtir fyrir því að við getum farið að mæla þingviljann, líkt og formaður Samfylkingarinnar, hv. þm. Árni Páll Árnason, mælti með í athugasemdum við fundarstjórn forseta einhvern tímann í liðinni viku, að fara þyrfti að telja hausa í stjórnarliðinu gagnvart þessari tillögu. Ég er sammála því. Við skulum láta umræðuna ganga áfram þannig að við getum flýtt fyrir því að við förum greiða atkvæði.