144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:24]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég er hingað komin til þess að mótmæla fundarstjórn forseta og mótmæla því að þetta mál sé enn þá á dagskrá. Nú gerðist það fyrir helgi að fram kom dagskrártillaga og atkvæðagreiðslu um hana var frestað vegna þess að það var ekki réttur meiri hluti fyrir henni í þingsal. Þá mótmælti ég fundarstjórn hæstv. forseta og ég mótmæli aftur í dag.

Mér finnst að hæstv. forseti, í þeirri störukeppni sem við erum að byrja þriðju vikuna í, ekki hafa stýrt hér fundum sem forseti alls Alþingis, heldur því miður sem forseti meiri hluta Alþingis. Mér finnst það grátlegt, hæstv. forseti.