144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Nú hefur þetta breyst úr málþófi í málæði undir dagskrárliðnum um fundarstjórn forseta. Frá því að rammaáætlun var tekin á dagskrá hafa 1.237 ræður verið haldnar, talað hefur verið í 24 klukkustundir undir þessum dagskrárlið, sem eru hvorki meira né minna en þrír heilir vinnudagar.

Virðulegi forseti. Hér er mikið kallað eftir því að koma málum á dagskrá þingsins. Ég geri þá að tillögu minni að við klárum að ræða þetta mál sem er á dagskrá fundarins. Ég fór yfir það í blaðagrein í Morgunblaðinu nú um helgina hvernig í pottinn var búið á síðasta kjörtímabili varðandi þau stórkostlegu pólitísku hrossakaup sem áttu sér stað á milli Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Við erum að vinda ofan af þeirri vitleysu, virðulegi forseti, og ég mælist til þess að þessi dagskrárliður haldi áfram.