144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:28]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er gott að fá nýjustu tölur frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Ég sakna þess dálítið að hún leggi ekki mat á efnisinnihald ræðnanna og hver sé með bestu ræðuna og þar fram eftir götunum. (Gripið fram í.) Ég held að það væri einmitt mjög þarft fyrir hv. þingmann að hlusta á það sem við erum að segja í ræðunum. Það er ekki endilega magnið sem skiptir mali, það er líka innihaldið. 1.200 stuttar ræður, vissulega, sólarhringur, um fundarstjórn forseta er auðvitað svolítið merkilegt, en hvaða lærdóm ætlar hv. þingmaður að draga af því, hvaða ályktun? Getur verið að hér sé stór hópur þingmanna svona rosalega óánægður með fundarstjórn forseta og það hvernig komið er fyrir þinginu? Hvarflar að hv. þingmanni að það sé ástæðan fyrir því að verið er að flytja þessar ræður?

Ég verð að segja að mér finnst ótrúlegt að það skuli vera haldnar 1.200 ræður um fundarstjórn forseta og hæstv. forseti virðist ekkert meðtaka (Forseti hringir.) að það er óánægja með fundarstjórn hans. Hann boðar ekki einu sinni til fundar formanna til að ræða ástandið í þinginu og það eru engir (Forseti hringir.) tilburðir sýndir í þá átt að reyna að leysa þessi mál.