144. löggjafarþing — 112. fundur,  26. maí 2015.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

244. mál
[17:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að svara tveimur ágætum ræðum hv. þingmanna meiri hlutans, fyrst hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur sem virðist rugla saman orðunum málefnalegur og efnislegur. Þetta hefur gerst ítrekað hér. Munurinn er auðvitað sá að efnisleg umræða um málið sjálft varðar málefnið sjálft en málefnaleg gagnrýni á fundarstjórn forseta er alveg jafn málefnaleg þótt hún sé ekki efnislega um virkjunarkostina. Þegar við erum að kvarta undan fundarstjórn þá er auðvitað málefnalegt og eðlilegt að ræða það undir liðnum um fundarstjórn forseta.

Hvað varðar ummæli hv. 2. þm. Reykv. s. um hvað við höfum kvartað og kveinað hér mikið. Ég ætla að segja henni stutta dæmisögu, vonandi á þeim 20 sekúndum sem ég hef.

Þegar ég var ungur fyrir löngu síðan fór ég stundum heim til mín og ég setti jakkann minn alltaf á gólfið í staðinn fyrir að hengja hann upp. Hæstv. móðir mín hafði tilefni til þess að kvarta undan þessu aftur og aftur og aftur og aftur. Þannig að það sem ég gerði var að ég tók lista og ég fór að skrifa niður í hvert sinn sem hún kvartaði, svo þegar hún var búin að kvarta nógu mikið fór ég að kvarta á móti. Nei, virðulegi forseti, ég hengdi jakkann bara upp, ég þroskaðist og hlustaði aðeins.